Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) sagði í gær að mat sjóðsins hafi ekki breyst og að sérfræðingar hans telji gengi evrunnar vera á réttu róli gagnvart öðrum helstu gjaldmiðlum heims. Á gjaldeyrismörkuðum er gengi evrunnar enn í sögulegu hámarki gagnvart Bandaríkjadal og er búist við að tölur um hagvöxt í Bandaríkjunum, sem birtar verða í dag, muni þrýsta dalnum enn frekar niður. Í skýrslu IMF frá því í byrjun þessa mánaðar kom fram það álit að þrátt fyrir að gengi evrunnar væri sögulega séð sterkt bentu tölur um viðskiptajöfnuð til að hún væri ekki of hátt skráð.