Tekjur Fjarskipta (þ.e. Vodafone á Íslandi) jukust um 4% á milli ára og hagnaður félagsins jókst um 18% á sama tímabili. Mestar tekjur hafði félagið af farsímaþjónustu eða 4,7 milljarða króna en þær drógust saman um 2% milli ára.

Tekjur af sjónvarpsþjónustu jukust um 5% og tekjur af internetþjónustu um 7% á sama tíma. Tekjur félagsins voru örlítið yfir væntingum þeirra greiningaraðila sem Viðskiptablaðið setti sig í samband við. Þar spilar óvæntur tekjuvöxtur í vörusölu inn í myndina eða um 31% á milli ára en þær telja um 12% af tekjum síðasta árs.

Fyrir ári síðan hafði félagið miklar áætlanir um vöxt í sjónvarpsþjónustu og kynnti til sögunnar nýja áskriftarleið, Vodafone PLAY, á árinu 2015. Í samtali við Viðskiptablaðið eftir að uppgjörið var kynnt sagði Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, að rúmlega 8.500 viðskiptavinir væru komnir í PLAY áskrift og meðal mánaðarvöxtur þeirra er 12,3%.

„Við sjáum einnig vöxt í janúar þegar Netflix opnaði fyrir þjónustu sína hér á landi,“ sagði Stefán. „Á sama tíma erum við að sjá skarpa aukningu í gagnamagni sem sýnir að það eru greinilega einhver áhrif að koma frá Netflix á notkun á sviði internets.“

Spurður að því hver helsti styrkleiki félagsins er segir Ragnar Benediktsson hjá IFS Greiningu að það sé lítil skuldsetning félagsins. Það veitir því færi á að vera mun móttækilegra fyrir breytingum á markaði að hans mati.

Nánar er fjallað um málið í Úr kauphöllinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .