Hagnaður Marel á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam 9,9 milljónum evra og meira en þrefaldaðist frá sama fjórðungi árið á undan. Rekstrarbatinnkemur í kjölfar endurskipulagningar og hagræðingar hjá Marel, en tekjur Marel uxu aðeins um 1% á sama tímabili.

Augu fjárfesta og greiningaraðila hafa ekki síður beinst að kaupum Marel á hollenska fyrirtækinu MPS. Á fjárfestakynningu vegna uppgjörsins voru birtar nákvæmari tölur um rekstur MPS og áhrif sameiningarinnar á Marel.

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir að uppgjörið hafi verið í takt við sínar væntingar og að flestu leyti í takt við væntingar markaðarins, jafnvel ívið betra. Þá segir hann að kynningin á fjárhag MPS hafi aukið traust fjárfesta á Marel.

„Eftir svona gott ár á ekki að gera ráð fyrir jafn miklum vexti á þessu ári. Tónn félagsins í uppgjörinu var frekar mildur hvað varðar 2016. Það var nefndur hóflegur innri vöxtur og væntanlega bara að einbeita sér inn á við, með MPS og annað,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Úr kauphöllinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .