Styrkur Invest, sem átti tæpan 40% hlut í FL Group, átti ekki pening til að greiða tryggingu fyrir skiptakostnaði til að óska eftir gjaldþrotaskiptum í mars 2009. Tryggingin sem leggja þurfti fram er 250 þúsund krónur og fer í að greiða skiptastjóra. Lýstar kröfur í bú Styrks, sem var að fullu í eigu Baugs Group, nema rúmum 47 milljörðum króna. Engar eignir eru í félaginu til að greiða upp í kröfur.

„Einhvern veginn eignaðist félagið þessar 250 þúsund krónur til að biðja um gjaldþrotaskipti á sjálfu sér, hvort sem það fékk lán eða stjórnarmenn lögðu það fram sjálfir. Þannig að þeir gátu beðið um gjaldþrotaskipti núna í haust, þann 22. september," segir Magnús Guðlaugsson hrl. og skiptastjóri Styrks Invest.

Þann 27. mars 2009 sendi stjórn Styrks Landsbankanum bréf. Þar sagði: „Handbært fé Styrks er uppurið og getur félagið af þeim sökum ekki sett  tryggingu fyrir skiptakostnaði verði gjaldþrotaskipta óskað á grundvelli 64. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. Félagið sér því ekki annan kost en að tilkynna Landsbankanum um að ekki er hægt að greiða skuldir félagsins við bankann."

Tekur stjórnin fram að Landsbankanum sé heimilt að líta á bréf þetta sem yfirlýsingu um eignaleysi og félagið muni ekki hafa uppi mótmæli fari bankinn fram á gjaldþrot félagsins án undangengis dóms eða aðfaragerðar.

Undir bréfið skrifa Einar Þór Sverrisson, Kristín Jóhannesdóttir og Þórður Bogason.

Skiptafundur var haldinn 10. mars síðastliðinn. Lýstar kröfur námu 47,6 milljörðum króna. Stærsti kröfuhafinn er Íslandsbanki með 17 milljarða kröfu. Landsbankinn gerir 12,8 milljarða kröfu í búið og þrotabú Baugs Group 9,8 milljarða króna. Engar eignir fundust í búinu að sögn Magnúsar og því fæst ekkert upp í kröfurnar.

Langstærsti hluti krafnanna er vegna lána til kaupa á bréfum í FL Group með veðum í bréfunum sjálfum. Um leið og Glitnir var yfirtekinn fór FL Group í greiðslustövðun og hlutabréf í félaginu urðu verðlaus.