Styrmir Guðmundsson hefur látið af störfum sem sjóðsstjóri hjá Júpíter rekstrarfélagi, en þetta staðfestir Ragnar Páll Dyer, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Styrmir hefur starfað sem sjóðsstjóri hjá fyrirtækinu síðastliðin fimm ár, en þar áður var hann sjóðstjóri vogunarsjóðsins TF2.

Einnig var hann starfsmaður og síðar forstöðumaður skuldabréfa- og afleiðumiðlunar Íslandsbanka og síðar Glitnis frá 2003 til 2007, og forstöðumaður skuldabréfa- og afleiðumiðlunar Straums fjárfestingarbanka frá 2007 til 2009.

Hann er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum, auk þess að hafa lokið gráðu í markaðshagfræði frá CBS í Kaupmannahöfn.