*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 1. nóvember 2013 15:24

Styrmir hættur hjá Straumi

Styrmir Þór Bragason hlaut í gær fangelsisdóm fyrir aðild sína í Exeter-málinu.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Birgir Ísl. Gunnarsson

Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, lét í gær af störfum hjá Straumi fjárfestingarbanka sem framkvæmdastjóri markaðsviðskipta. Sama dag hlaut hann eins árs fangelsisdóm í Hæstarétti vegna aðildar sinnar að Exeter-málinu svokallaða. Héraðsdómur hafði áður sýknað Styrmi. Styrmir var þriðji maðurinn til að hljóta fangelsisdóm í málinu.

Exeter málið snýst um ríflega eins milljarðs króna ólöglegar lánveitingar Byrs til félagsins Exeter Holding til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr, meðal annars af MP banka, Jóni Þorsteini Jónssyni og félagi í eigu Ragnars Z. Guðjónssonar, árið 2008. Styrmir var sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum fyrir að hafa sem forstjóri MP banka látið bankann taka við fé sem hann átti að vita að hefði skilað sér til bankans með umboðssvikum.

Hæstiréttur segir að vitneskja Styrmis um tiltekin atriði, menntun hans og þekking á starfsemi banka og annarra lánastofnana hafi „leitt til þess að honum hefði ekki getað dulist að lánveiting Byrs hefði verið ólögmæt og til þess fallin að valda sparisjóðnum verulegri fjártjónshættu.“ Í dómnum er tekið fram að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til þess að Styrmir hafi ekki hagnast persónulega á brotinu.

Þeir Jón Þorsteinn og Ragnar höfðu áður verið dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi hvor fyrir umboðssvik vegna aðildar að málinu. 

Dómur Hæstaréttar