Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, sagði að lokinni þingfestinu í Exeter-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að ákæra sérstaks saksóknara á hendur honum væri með öllu tilhæfulaus. Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi formaður stjórnar Byrs og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, voru einnig mættir í þingfestinguna en vildu ekki tjá sig við fjölmiðla að henni lokinni.

Styrmir vildi ekki tjá sig frekar um málatilbúnað sérstaks saksóknarar og sagði að málið yrði útkljáð fyrir dómstólum. Þetta er fyrsta ákæra embættisins frá bankahruni. Þremenningarnir eru ákærðir fyrir umboðssvik en Styrmir Þór er að auki ákærður fyrir peningaþvætti.