Styrmir Þór Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Straumi fjárfestingabanka. Hann var áður forstjóri MP banka (2006 - 2009) en þar á undan gegndi hann stöðu forstjóra fjárfestingafélagsins Atorku (2002 - 2005). Styrmir er með meistaragráðu í fjármálahagfræði frá Stirling University í Skotlandi.

Fram kemur í tilkynningu um ráðningu Styrmis að Straumur hafi tekið til starfa sem fjárfestingabanki 1. september síðastliðinn. Straumur leggi áherslu á að bjóða bjóða fagfjárfestum upp á þjónustu á sviði markaðsviðskipta og fyrirtækjaráðgjafar og er Straumur aðili að Nasdaq OMX Iceland kauphöllinni.

Straumur fjárfestingabanki er reistur á grunni Straums-Burðaráss fjárfestingabanka á Íslandi. Bankinn er í eigu eignaumsýslufélagsins ALMC hf., en það er að langmestu leyti í eigu erlendra fjárfesta. Efnahagsreikningur Straums samanstendur nær eingöngu af eigin fé, rúmum einum milljarði króna. Hjá Straumi starfa um 25 manns.