Stytta ehf., sem á 29,7% hlut í bresku matvörukeðjunni Iceland Foods, tapaði 27,1 milljón punda, um fimm milljörðum króna, á árinu 2009. Félagið skuldaði kröfuhöfum sínum 512 milljónir punda, 94,8 milljarða króna, í lok þess árs. Eina eign Styttu er hluturinn í Iceland Foods sem hefur ekki verið seldur. Eigið fé félagsins er neikvætt um 16,4 milljarða króna.


Þetta kemur fram í ársreikningi Styttu fyrir árið 2009 sem skilað var inn til ársreikningaskráar 21. desember síðastliðinn.

Stofnað sem hluti af fléttu

Stytta var stofnuð í júlí 2008 til að kaupa hlut Fons í Icelandkeðjunni fyrir 430 milljónir punda, um 79,6 milljarða króna, á gengi dagsins í dag.

Pálmi Haraldsson, þáverandi eigandi Fons, sagðist við það tækifæri líklegast hafa sett Íslandsmet í hagnaði með sölunni. Síðan kom í ljós að félagið hafði verið stofnað sérstaklega til að kaupa hlutinn með láni frá Landsbankanum og Glitni til þess að Fons gæti greitt upp önnur lán við sömu banka. Þar sem Iceland Foods var óskráð félag var hægt að setja hvaða verðmiða sem var á eignarhlutinn. Þriðjungur lánsins var í breskum pundum en afgangurinn í íslenskum krónum. Fons notaði síðan hluta kaupverðsins til að tryggja yfirráð sín yfir móðurfélagi Iceland Express.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.