Óheimilt var að skerða réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið í samræmi við lög nr. 125/2014, en lagabreytingin leiddi til þess að tímabilið, sem atvinnuleysisbætur voru greiddar var stytt úr 36 mánuðum í 30. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli VR gegn íslenska ríkinu sem kveðinn var uppí gær.

Dómurinn féllst á aðalkröfu VR þess efnis að viðurkennt yrði að óheimilt hafi verið að skerða réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið með lögum um sex mánuði.

Í dómnum segir að sá sem verði atvinnulaus og fái greiddar atvinnuleysisbætur verði að byggja framfærslu sína á þessum greiðslum og meðan þeirra nýtur við á hann almennt að geta reitt sig á að njóta þeirra í samræmi við þær reglur sem um þær gilda þegar réttindi hans urðu virk. Hann eigi réttmætar væntingar um að geta notið þessara greiðslna út bótatímabilið.

Í niðurstöðu dómsins sagði jafnframt að ríkið hafi ekki getað lagt fram nein þau gögn sem fært geti viðhlítandi rök fyrir því að nauðsynlegt hafi verið að lækka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í dómnum segir að skerðingin hafi þurft að helgast af ríkri nauðsyn og málefnalegum forsendum en ekki verði séð að hún hafi helgast af öðru en því að bæta afkomu ríkissjóðs og kemur fram að það hafi verið um 1,1 milljarður króna. Slíkt réttlæti ekki afturvirka skerðingu á stjórnarskrárvörðum kröfuréttindum félagsmanna VR.