Starfshópur um afnám verðtryggingar leggur til að bannað verði að veita verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára, en til þessa hafa 40 ára jafngreiðslulán verið algengasta form íbúðalána. Valdimar Ármann, sem sat í starfshópnum, segir að í raun skipti styttingin mestu máli.

„Verði tillögur okkar að veruleika verður áfram hægt að bjóða upp á 40 ára lán, en þau mega ekki vera jafngreiðslulán. Greiðslubyrðin á 25 ára jafngreiðsluláni verður svipuð og á 40 ára láni með jöfnum afborgunum, en í báðum tilfellum verður greiðslubyrði lántaka mitt á milli greiðsbyrði af 40 ára óverðtryggðu láni með jafngreiðslum og 40 ára verðtryggðu jafngreiðsluláni. Bæði lánsformin, þ.e. 25 ára jafngreiðslulán og 40 ára lán með jöfnum afborgunum halda hækkun höfuðstóls í skefjum, en koma ekki í veg fyrir hana.“

Hann segir að hópurinn leggi til ákveðnar mótvægisaðgerðir sem miði að því að halda greiðslubyrðinni eins nálægt því sem hún er núna þrátt fyrir breytt lánafyrirkomulag. „Við leggjum til að fólki verði heimilt að nota séreignarsparnað til að lækka greiðslubyrði lána og svo koma vaxtabætur einnig þarna inn í, en þar verður að stíga varlega til jarðar. Við gerum ekki ráð fyrir því að útgjöld ríkisins vegna vaxtabóta aukist og því kemur, að öðru óbreyttu, óhjákæmilega til skerðingar bóta ef umsóknum um bætur fjölgar eða þær hækka. Því leggjum við til að vaxtabótakerfinu verði breytt þannig að áherslan verði á tekjulága einstaklinga, þá sem eru að kaupa húsnæði í fyrsta sinn og að þær greiðist í upphafi lánstímans, t.d. fyrstu 10-15 árin. Þannig næðist önnur dreifing vaxtabóta án þess að þetta auki kostnað ríkissjóðs.