Tímabært er að stytta skólagöngu á grunnskólastigi og á framhaldsskólastigi til að auka hagkvæmni og skilvirkni í menntakerfinu. Þetta kemur fram í skýrslu OECD um efnahagsmál á Íslandi 2013. Slíkar aðgerðir myndu jafnframt skila sparnaði fyrir ríkissjóð en stofnunin telur að endurskoða þurfi útgjöld ríkisins til að ná fram aukinni hagkvæmni og skilvirkni. Í því samhengi er bent á að bein útgjöld ríkissjóðs á Íslandiséu , að undanskildu lífeyris- og tryggingakerfi, með þeim hæstu sem þekkist í OECD löndum.

„Mest er hægt að auka skilvirkni á sviði menntunar, þar sem uppsöfnuð útgjöld á nemanda eru mjög há en árangur í meðallagi, og í heilbrigðisþjónustu þar sem þjónusta sérfræðinga og notkun greiningartækja er mikil,“ segir í skýrslunni en óhætt er að segja að hvoru tveggja hafi lengi verið til umræðu í íslenskri stjórnsýslu.