Cristopher Dodd, formaður bankanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, segir þingflokkana hafa samið um meginatriði 700 milljarða dala björgunaráætlunar fyrir fjármálageirann.

Samkvæmt frétt Reuters um málið er bandaríski löggjafinn nálægt því að samþykkja björgunaráætlun ríkisstjórnar George Bush og sáust merki þess á markaði í dag, en mikil hækkun varð og fóru bankar fyrir henni.

Þingflokkarnir hafa þó ekki samið um smáatriði ennþá en líklega er þess ekki langt að bíða að samkomulag liggi fyrir, sem samþykkt verður í báðum deildum þingsins.

Til að gera sér grein fyrir stærðargráðu neyðaraðstoðarinnar má benda á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) hefur lánað samtals 506,7 milljarða dala síðan árið 1947, eða um 200 milljörðum minna en Bandaríkjastjórn hyggst eyða í björgun fjármálakerfisins. 700 milljarðar dala eru 2.300 dalir (tæplega 214.000 ísl. kr.) á hvert mannsbarn í Bandaríkjunum.

Reuters greindi frá.