Kvikmyndin Mama Mia stefnir óðum að því að verða tekjuhæsta mynd sögunnar í Bretlandi. Nú þegar hefur myndin halað inn 66,2 milljónir punda.

Myndin kostaði 28 milljónir punda í framleiðslu en hefur á heimsvísu þegar skilað 342 milljóna punda tekjum, samkvæmt frétt Telegraph.

Tekjur af sýningu Titanic í Bretlandi námu 69 milljónum punda, en búist er við að Mama Mia sigli fram úr Titanic á allra næstu dögum, einkum með hjálp singalong-sýninga svokallaðra þar sem áhorfendum gefst kostur á að syngja með Abba-lögum myndarinnar.

Myndin hefur þegar tekið fram út fyrstu Harry Potter myndinni sem situr í þriðja sæti lista yfir tekjuhæstu kvikmyndir Bretlands.

Aðsókn í bresk kvikmyndahús hefur ekki verið meiri en hún var í sumar í 40 ár.