Það styttist í að nokkrar tegundir af jólabjór seljist upp, samkvæmt upplýsingum VB.is frá Vínbúðunum. „Það er engin tegund alveg uppseld,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri Vínbúðanna.

VB.is hefur heimildir fyrir því að tvær af þeim tegundum sem séu langt komnar séu annars vegar danski bjórinn Snowball og hins vegar Stúfur, sem brugghúsið Borg framleiðir.

Sigrún Ósk segir að Vínbúðirnar hafi óskað eftir meira magni af þeim tegundum sem séu að verða uppseldar. „Það er óvíst hvort meira magn fæst,“ segir Sigrún en verið sé að bíða eftir svari.

Tuttugu og fimm tegundir af jólabjór eru seldar í ár. Sjö nýjar tegundir eru seldar og eru Snowball og Stúfur þeirra á meðal.