Hjalti Páll Ingólfsson, verkefnastjóri hjá Íslenskri Nýorku, segir að sífellt styttist í vetnisvæðingu Íslands og að frá og með næsta vori mun vetnisfólksbílum fjölga hratt á götum Reykjavíkur. Nú fyrir skömmu var fyrsti fólksvetnisbílinn afhentur en bíllinn er af Daimler Chrysler gerð og er búinn vetnisefnarafal.

Fleiri bílar eru væntanlegir með haustinu og í vetur verða alls ellefu vetnisbílar akandi um á götum Reykjavíkur. Að sögn Hjalta Páls mun mikill kraftur færast í verkefnið næsta vor en þá mun vetnisbílunum fjölga auk þess sem hvalaskoðunarskipið Elding verður vetnisvætt.

Hjalti Páll segist sjá fyrir sér að almenningur geti tekið vetnisbíla í sína þjónustu einhvern tímann á tímabilinu 2012 og 2016, en þá stefna stærstu bílaframboðin að því að vera komin með vetnisbifreiðar í almenna sölu. Hann segist jafnframt búast við að vistvænar bifreiðar geti verið fullkomlega samkeppnishæfar við hefðbundnar bifreiðar sem brenni jarðefnaeldsneyti. "Núna er á dagskrá að halda áfram rannsóknum, fjölga vetnisbílum á götunum og fjölga vetnisdreifistöðum," segir Hjalti.

Eingöngu ein vetnisstöð er nú starfandi upp á Höfða en að sögn Hjalta gæti hún í fullri afkastagetu sinnt 200 bílum. Til stendur að fjölga stöðvunum um eina til að byrja með. Að sögn Hjalta er verkefnið enn sem komið er eingöngu hugsað fyrir Reykjavíkursvæðið og því er þess eflaust langt að bíða að vetnisstöð rísi á landsbyggðinni. Ferðalög vetnisbifreiða munu því takmarkast við Reykjavík til að byrja með.