„Það er mjög góð skráning á fótboltamótið. Hún er ekki síðri en í fyrra,“ segir Hjörvar Maronsson, sérfræðingur hjá Íslenskum verðbréfum, um árlegt fótboltamót fjármálafyrirtækja. Búið er að skrá þrjátíu lið til leiks á mótinu sem segja má að sé eins konar uppskeruhátíð fjármálageirans. Blásið verður til leiks á Akureyri laugardaginn 25. janúar næstkomandi og keppt í íþróttahúsinu Boganum.

Þetta verður 15. árið sem mótið verður haldið á Akureyri og hafa Íslensk verðbréf haldið utan um það öll árin.

Keppt er bæði í karla- og kvennaflokki. Í fyrra sigraði sameinað lið Íslenskra verðbréfa og T Plús í fyrsta skipti í karlaflokki en kvennalið Íslandsbanka vann í sínum flokki fjórða árið í röð.