*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 17. nóvember 2011 11:11

Styttist í fyrstu greiðslur úr þrotabúi Landsbankans

Kröfuhöfum Landsbankans voru í morgun kynntar áætlanir um greiðslur krafna. Þrotabúið á líklega upp í Icesave-kröfur.

Ritstjórn
Skilanefnd og slitastjórn Landsbankans.
Haraldur Guðjónsson

Slitastjórn gamla Landsbankans lagði fram áætlanir um fyrstu hlutagreiðslur úr þrotabúi bankans á fundi sínum með skilanefnd og tæplega hundrað kröfuhöfum í morgun. Fundurinn stendur enn yfir.

Fram kom í kjölfar dóma Hæstaréttar í lok síðasta mánaðar þar sem forgangsréttur krafna varð skýr að gert væri ráð fyrir að fyrstu greiðslur færu fram nokkrum vikum síðar. Miklu máli skiptir með hvaða hætti verður greitt úr búinu, við hvaða gengi verður miðað við og hver gengisviðmiðunin verður. Þá skiptir máli hver uppgjörsmyntin verður. Fram hefur komið á fyrri kröfuhafafundum skilanefndar og slitastjórnar gamla Landsbankans að lausafé og eignir búsins eru að mestu í erlendum myntum. Ef greiða ætti út í íslenskum krónum þyrfti að kaupa nokkuð hundrað milljarða íslenskra króna.

Þá var á fundinum í morgun kynntar nýjar fjárhagsupplýsingar og væntar endurheimtur þrotabús gamla Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins. Á síðasta kröfuhafafundi í byrjun september kom fram að áætlaðar endurheimtur næmu 1.332 miljörðum króna sem var 13 milljörðum umfram forgangskröfur. Forgangskröfur eru að nær öllu leyti svokallaðar Icesave-kröfur.