Stutt er í að yfirvöld í Bandaríkjunum og innan Evrópusambandsins komist að niðurstöðu um hvernig lagaumhverfi verði háttað í kring um samruna kauphallanna NYSE og Euronext, segir í frétt Dow Jones.

Bandaríska verðbréfaeftirlitið og viðkomandi stofnanir í Evrópu sem hafa eftirlit með Euronext munu úrskurða hvernig málum verði háttað og segir forstjóri NYSE, John Thain, stutt sé í að niðurstaða náist í málinu. Thain ítrekaði einnig að öðrum evrópskum hlutabréfamörkuðum standi enn til boða að vera með í samrunanum.

Thain segir að viðkomandi yfirvöld í Evrópu muni hafa umsjón með starfseminni þar, en áhyggjur hafa verið uppi um að bandarísk yfirvöld muni hafa afskipti af starfseminni í Evrópu, þrátt fyrir fullyrðingar NYSE um að svo verði ekki.