Heimildir Viðskiptablaðsins herma að stjórn Kaupskila ehf, dótturfélags skilanefndar Kaupþings, geti verið skipuð öðru hvorum megin við komandi helgi, en það er fyrsta skrefið í átt að vali á nýjum bankastjóra Arion banka.

Kaupskilum er ætlað að halda utan um 87% eignarhlut skilanefndarinnar í Arion. Fjármálaeftirlitið (FME) þarf að votta hæfi þeirra sem sitja í stjórn félaga sem fara með virkan hlut í fjármálafyrirtæki og hefur könnun á því hæfi staðið yfir vikum saman. Þegar búið er að samþykkja stjórnarmenn Kaupskila mun stjórn þess félags gera tillögu að nýrri stjórn Arion Banka.

FME þarf líka að kanna hæfi þeirra sem þar verða skipaðir. Að því ferli loknu verður hægt að velja nýjan bankastjóra Arion banka úr hópi þeirra 40 sem sóttu um starfið í lok árs í fyrra. Finnur Sveinbjörnsson, núverandi bankastjóri, var ekki einn þeirra sem sóttu um og lætur því af störfum. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að nýr bankastjóri gæti tekið við fyrir næstu mánaðamót.