Vegfarendur danskra borga fara ekki varhluta af harðri samkeppni á dönskum dagblaðamarkaði. Vart verður þverfótað fyrir fólki á vegum fríblaðanna sem vill ólmt koma blöðum í hendur vegfarenda.

Áskriftarblöð á borð við Politiken og Berlingske Tidende hafa tileinkað sér sömu aðferðir og eiga það til að senda fulltrúa sína út á göturnar til að bjóða gangandi vegfarendum ókeypis eintak af tölublaði dagsins.

Jafnan er vísað til svokallaðs blaðastríðs (d. aviskrig) þegar dönsku fríblöðin eru til umfjöllunar. Undir lok ágústmánaðar 2006 hóf Dagsbrún Media útgáfu á fríblaðinu Nyhedsavisen.

Fríblöð voru þá nýmæli í Danmörku, en stærstu útgáfuhúsin þar í landi brugðu skjótt við og tilkynntu fyrirætlanir um að fara í samkeppni við Nyhedsavisen með eigin fríblöðum. Þó er rétt að geta þess að fríblöðin metroXpress, Urban og Søndagsavisen voru fyrir á markaðnum þegar Nyhedsavisen hóf sína útgáfu.

Hins vegar var blöðunum Dato og 24timer komið á legg beint til höfuðs Nyhedsavisen. Nokkur tortryggni greip um sig meðal keppinauta og jafnvel danskra neytenda í garð Nyhedsavisen þegar áform um útgáfu voru tilkynnt og undirbúningur hennar hófst.

Blaðinu var fyrst um sinn meinað að kaupa áskrift að Ritzau-fréttaveitunni, sem er sameiginlegur, miðlægur gagnagrunnur danskra fjölmiðla. Dönsku neytendasamtökin voru einnig fljót að krefjast þess að neytendum yrði tryggður sá möguleiki að komast hjá því að fá fríblöð inn um lúguna hjá sér.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .