Forráðamenn byggingavörufyrirtækja eru uggandi þessa dagana um hag sinna viðskiptavina. Ástæðan er útlánastopp bankanna sem eru þegar farin að valda vandræðum.

„Það eru margir byggingaverktakar komnir mjög tæpt. Sérstaklega þeir sem verið hafa að fjármagna sig á erlendum lánum. Með gengisfallinu hefur eigið fé þeirra horfið," segir Hjalti Már Bjarnason, forstjóri MEST. „Þá er maður að sjá innkaupsverð á ýmsum vörum hækka um 20 til 25% bara vegna breytts gengis. Ofan á þetta bætast háir vextir. Maður rekur ekkert fyrirtæki lengi í 20% vaxtaumhverfi."

Hjalti Már segist hræddur um að farið sé að styttast í stóran skell hjá mörgum verktökum. „Þetta er svo rosaleg handbremsuaðferð að ég hef aldrei upplifað annað eins. Það er allt orðið mjög erfitt."

Fleiri taka í svipaðan streng. Sigurður E. Ragnarsson, forstjóri Byko, segir stöðuna á markaðnum þó enn ekki vera farna að hafa tilfinnanleg áhrif á þeirra sölutölur. „Aftur á móti höfum við orðið vör við það að okkar viðskiptavinir sem eru í íbúðarhúsabyggingum eru farnir að huga alvarlega að því að draga úr framleiðslu og seinka framkvæmdum.”

Húsasmiðjan hefur verið í uppbyggingarfasa líkt og Byko, einkum á landsbyggðinni, og verður honum haldið áfram. Hins vegar er búið að loka verslun fyrirtækisins við Fiskislóð, þar sem Bónus er nú til húsa. Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum að engan bilbug væri á þeim að finna þótt naprir vindar hefðu blásið um efnahagskerfið að undanförnu.

Svipaða sögu er að segja af Múrbúðinni, sem tók ákvörðun um uppbyggingarferli utan höfuðborgarsvæðisins áður en harðna tók á dalnum. Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi Múrbúðarinnar, dró þó enga dul á það í verktakablaði Viðskiptablaðsins í síðustu viku að bankarnir hefðu alvarleg áhrif á stöðuna með því að skrúfa fyrir sín útlán.

Þá má geta þess að þýska verslanakeðjan Bauhaus hyggst enn opna nýja 21.500 fermetra byggingavöruverslun við Vesturlandsveginn undir lok þessa árs. Þar er sterkur bakhjarl sem gæti átt auðveldara með að hasla sér völl á íslenska markaðnum einmitt vegna erfiðrar stöðu keppinautanna.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt Viðskiptablaðsins á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .