Efnahagurinn í Bandaríkjunum er nánast kominn í eðlilegt horf og búast má við því að Seðlabankinn hækki stýrivexti fljótlega. Þetta sagði Dennis Lockhart, seðlabankastjóri Atlanta, í dag.

„Aðstæður eru ekki lengur óvenjulegar,“ sagði Lockhart meðal annars í ræðu sinni. Hann vildi þó ekki tjá sig um það hvort hann myndi kjósa með vaxtahækkun á næsta fundi stjórnar Seðlabankans í september.

Hann segir að ákveðnar hindranir séu úr veginum. Má þar nefna erlenda áhættu á borð við ástandið í Grikklandi eða efnahagshrun í Kína, sem hann telur að verði ekki að veruleika. Hægt sé að merkja í flest boxin þegar kemur að markmiðunum sem Seðlabankinn setti sér um t.a.m. atvinnuleysi og verðbólgu.

„Við vitum miklu meira en við vissum fyrr á árinu og ákveðnar áhyggjur eru ekki lengur til staðar, við erum að komast nærri og nærri fullum bata,“ sagði Lockhart.

Frá því í maí hefur Lockhart haldið því fram að vextir myndu líklega hækka í september. Sjálf hefur Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, áður gefið út að vaxtahækkun muni eiga sér stað fyrir árslok.