Viðræðum milli eigenda HS Orku og ríkisstjórnar Íslands um styttingu á leigutíma fyrirtækisins á jarðvarmaauðlindum úr 65 árum standa enn yfir. Þær hófust í lok janúar síðastliðnum og var þá sagt að þeim ætti að vera lokið fyrir lok marsmánaðar. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að forsvarsmenn Magma Energy, eiganda HS Orku, hafi boðist að lækka leigutímann niður í 40-50 ár.

Viðræðurnar stranda að einhverju leyti á því að styttri leigutími mun leiða af sér styttingu á afskriftartíma virkjananna, sem mun í kjölfarið hækka orkuverð. Hann hefur verið á bilinu 40-50 ár hjá jarðvarmavirkjunum og um 60 ár hjá vatnsaflsvirkjunum. Samhliða viðræðunum ætlaði ríkissjóður að kanna hvort flötur væri á því að kaupa land og auðlindir, sem HS Orka nýtir nú, af Reykjanesbæ á 1,8 milljarða króna.