*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 22. október 2019 13:07

Styttri vinnutími helsta breytingin

Fjármálaráðuneytið segir styttri vinnutími vera helstu tíðindin í nýgerðum kjarasamningum.

Ritstjórn
Fjallað er um nýgerða kjarasamninga á vef Stjórnarráðsins.
Haraldur Guðjónsson

Betri vinnustaðamenning og starfsumhverfi eru markmiðin á bak við styttingu vinnutíma í nýgerðum kjarasamningum hins opinbera og fimm stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna, að því er kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins. 

Breytingin er í takt við að það sem samið var á almennum vinnumarkaði í vor, en í fréttinni segir að í „breytingunum felst líka mikið tækifæri til umbóta í starfsemi ríkisins“. Samningarnir eigi að stuðla að bættum lífskjörum, aukinni samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu. 

Þess má geta að eitt af stærstu baráttumálum BSRB er að stytta vinnuvikuna, án þess að laun skerðist á móti, í því augnamiði að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna. Á heimasíðu BSRB má til að mynda lesa eftirfarandi: Stefna BSRB er að lögfesta þurfi styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar. Rannsóknir sýna að styttri vinnuvika leiðir til aukinnar ánægju í starfi og aukinna afkasta. Þá mun heilsa og vellíðan landsmanna batna með styttri vinnudegi og jafnrétti kynjanna aukast.

Ekkert félaganna fimm hafði vísað kjaraviðræðum sínum til ríkissáttasemjara, en í  þeim eru samtals um 2.300 félagsmenn sem starfa á velflestum stofnunum ríkisins. Svo háttar hins vegar til í 27 öðrum málum en í langstærstum hluta þeirra er viðsemjandi íslenska ríkið eða sveitarfélög. Fundað hefur verið nær daglega í húsakynnum sáttasemjara það sem af er mánuði og virðist ekki sem lausn sé í sjónmáli í mörgum málanna. Alls gerir ríkið um 60 kjarasamninga við um 100 stéttarfélög með um 20 þúsund félagsmenn.

 

Stikkorð: kjarasamningar BSRB hið opinbera