Heildarlaun hækka um 10% milli ára en á sama tíma styttist vinnutíminn um tæplega eina klukkustund á viku og vinna félagsmenn nú að meðaltali 46 klukkustundir á viku miðað við fullt starf. Þetta kemur fram í nýrri könnun Flóabandalagsfélaga meðal félagsmanna sinna félaga. Flóabandalagið mynda Efling, Hlíf í Hafnarfirði, VSFK í Keflavík og Stéttarfélag Vesturlands.

Niðurstöður könnunarinnar eru þær að meðalheildarlaun karla eru nú 531 þúsund krónur á mánuði og meðalheildarlaun kvenna um 405 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf. Leiðbeinendur á leikskólum eru með lægstu heildarlaunin eða 354 þúsund krónur á mánuði að meðaltali en skrifstofufólk, stjórnendur og sérfræðingar með hæstu heildarlaunin eða 579 þúsund krónur að meðaltali.

Einungis 44% félagsmanna Eflingar búa í eigin húsnæði og greiðir sá hópur um 125 þúsund krónur að meðaltali í afborganir af húsnæðislánum. Þá eru um 33% félagsmanna Eflingar í leiguhúsnæði og greiða að meðaltali 2.077 krónur fyrir hvern fermetra á mánuði.

Þá segir jafnframt að húsnæðiskostnaður pólskumælandi félagsmanna í Flóanum sé hærri en íslenskumælandi félagsmanna. Pólskumælandi félagsmenn greiða að meðaltali 2.375 kr. fyrir hvern fermetra en íslenskumælandi 1.809 kr.