Glenn Tilton, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri bandaríska flugfélagins United Airlines, segist styðja fyrirhugað samkomulag milli Evrópusambandsins og bandarískra stjórnvalda um aukið frjálsræði í flugi yfir Atlantsála (e. open skies) þrátt fyrir að innleiðing samkomulagsins muni auka samkeppni við flugfélagið sem hann stjórnar. Í aðsendri grein sem birtist í Financial Times í gær segir Tilton að neytendur beggja vegna Atlantsála muni hagnast mikið á aukinni samkeppni á stærstu loftferðamörkum heimsins.

Drögin að samkomulaginu verða tekin til umfjöllunar af samgönguráðherrum Evrópusambandsins á fimmtudag. Talið er að almennur stuðningur ríki meðal aðildarríkja sambandsins við drögin en hinsvegar hefur breski samgönguráðherrann látið í ljós efasemdir. Talið er að hann sé að bregðast við þrýstingi frá forráðamönnum bresku flugfélaganna British Airways og Virgin Atlantic en samkomulagið myndi auka aðgengi annarra flugfélaga að Heathrow-flugvelli í London. Í grein sinni í Financial Times segir Fulton að aukið aðgengi að Heathrow auki einnig samkeppni við bandarísku flugfélögin United Airlines og American Airlines, en þau hafa ásamt áðurnefndum breskum flugfélögum haft einkarétt á flugi til Bandaríkjanna til og frá Heathrow. Tilton segir að United Airlines sé reiðubúið til að þess að fást við aukna samkeppni á flugleiðinni yfir Atlantshafið vegna þess að innleiðing loftferðarsamningsins muni gera það að verkum að flugmarkaðir í Evrópu og Bandaríkjunum muni taka mikilvæg skref í átt að auknu frjálsræði.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.