Stjarnan ehf., sem á og rekur 18 Subway-staði á Íslandi, hagnaðist um 109 milljónir króna á árinu 2009. Það var töluverð aukning frá árinu áður þegar félagið hagnaðist um 66,4 milljónir króna. Eignir Stjörnunnar nema 284,3 milljónum króna en heildarskuldir félagsins í árslok 2009 námu 100,9 milljónum króna. Vert er þó að taka fram að skuldir við lánastofnanir voru einungis 19,2 milljónir króna.

Þorri skulda þess var því vegna viðskiptaskulda, ógreiddra launa og skatta ársins. Stjarnan er því mjög lítið skuldsett félag. Stjarnan er í eigu félags Skúla Gunnars Sigfússonar athafnamanns. Á meðal annarra eigna hans er 26,32% eignarhlutur í Nautafélaginu ehf., sem á og rekur Hamborgarafabrikkuna. Aðrir eigendur þess félags eru Jóhannes Ásbjörnsson (36,84%) og Sigmar Vilhjálmsson (36,84%).