Subway skyndibitakeðjan ætlar að byrja að stækka samlokur sínar í Bandaríkjunum eftir að hafa verið lögsótt fyrir að selja þær styttri en auglýst var. Þetta kemur fram í drögum að samkomulagi vegna málsins.

Subway varð fyrir mikilli gagnrýni fyrir tveimur árum þegar mynd af meintum 12 tommu báti var birt á netinu við hliðina á tommustokki sem sýndi að báturinn var í raun bara 11 tommur að lengd. Í kjölfarið var höfðuð hópmálsókn gegn Subway af viðskiptavinum sem þóttu þeir hafa verið sviknir.

Subway hefur nú samþykkt að krefjast þess af leyfishöfum að þeir mæli lengd brauðsins sem þeir bjóða fólki til að ganga úr skugga um að það sé raunverulega 12 tommur að lengd, og að litlu 6 tommu bátarnir séu 6 tommur í raun og veru.

Subway mun láta menn á sínum vegum mæta á veitingastaði og rannsaka hvort raunverulega sé fylgst vel með bátunum. Þá munu þeir breyta æfingaefni sínu og reglum til söluaðila sem höfðu áður leyft örlítið umburðarlyndi þegar kæmi að stærð bátanna.

Samkomulagið verður tekið fyrir í janúar samkvæmt Subway og ef það nær í gegn taka þessar breytingar gildi. Þess má geta að einungis virðist vera um Bandaríkin að ræða og hvergi hefur komið fram að bátarnir á Íslandi séu minni en þeir hafa verið auglýstir.