Stjórnvöld allra Norðurlandanna standa saman að tilnefningu norrænnar trébátasmíði á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, um óefnislega menningararfleifð mannkyns. Umsóknin var afhent í vikunni, undirrituð af ráðherrum allra norrænu ríkjanna. Óskað er eftir því að verklag, siðir, venjur og hættir sem tengjast norrænum súðbyrtum trébátum verði þar skráð.

Í tilkynningu frá Vitafélaginu – íslensk strandmenning segir að súðbyrðingurinn, sem er hinn dæmigerði norræni trébátur, hafi verið farkostir fólks hvarvetna með ströndum Norðurlandanna:

Menningararfur í hættu

„Þeir voru mikilvæg samgöngutæki sem tengdu Norðurlandaþjóðirnar - og á þeim var dregin björg í bú. Súðbyrðingurinn sjálfur er dýrmætur menningararfur og gegnir ríku hlutverki í strandmenningu Norðurlandaþjóðanna.“

Þessi menningararfur sé hins vegar í hættu.

„Súðbyrtum bátum hefur fækkað verulega undanfarna áratugi og sífellt fækkar bátasmiðum sem kunna til verka. Þegar svo er komið er menningararfur að glatast og líkur á að menningarverðmætin sem felast í norræna súðbyrðingnum hverfi í stað þess að erfast til komandi kynslóða.“

Vitafélagið segir að um 200 aðilar á Norðurlöndunum, bátasmiðir, söfn og félagagasamtök, standi að baki umsókninni. Á Íslandi var það Vitafélagið sem leiddi starfið, en að baki umsókninni standa auk þess bátasmiðir og átta söfn, þar með talið Síldarminjasafn Íslands og Þjóðminjasafnið. Mennta- og menningarráðuneytið sendi síðan umsóknina inn til UNESCO ásamt menningarráðuneytum annarra norrænna ríkja.

Smíðin enn kennd

Vitafélagið greinir frá því að víða séu sterk félög í kringum strandmenningu og súðbyrta báta á Norðurlöndunum þótt þeir séu ekki lengur nauðsynlegir fyrir afkomu landsmanna. Smíði þeirra sé kennd í lýðskólum og iðnskólum og saga þeirra og smíði kennd á háskólastigi í Noregi. Því miður sé smíði þeirra hvergi kennd á Íslandi.

„Það eru ómetanleg verðmæti fólgin í því að varðveita súðbyrðingshefðina því hún skírskotar beint til nútímafólks“ segir Søren Nielsen frá Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu: „Súðbyrðingarnir eru mikilvægir því þeir höfða til okkar á alveg sérstakan hátt og uppfylla þarfir sem erfitt er að mæta með öðrum hætti í lífi okkar. Þeir fela í sér tengsl við fortíðina en eru jafnframt ákjósanlegur rammi um umhverfisvæna frístundaiðju og náttúruupplifanir. Súðbyrðingarnir gefa fólki tækifæri til að rækta hefðir og rótgróna menningu í samfélagi við aðra og tryggja framtíð bátanna með því að leiða notkun þeirra inn á nýjar brautir.“