Hagvöxtur í Rómönsku Ameríku verður neikvæður um 0,5% á þessu ári samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ef spáin gengur eftir verður þetta ár það sjötta í röð þar sem hagvöxtur í þessum heimshluta er minni en árið á undan. Hagvöxtur í Suður-Ameríku verður neikvæður um 2% gangi spáin eftir.

Flest ríki Suður-Ameríku eru miklir hrávöruframleiðendur. Í heimshlutanum er að finna mikið af málmum, olíu og öðrum jarðefnum og þar er jafnframt mikil landbúnaðarframleiðsla. Á fyrsta áratug þessarar aldar jókst eftirspurn eftir hrávörum mikið og verð þeirra hækkaði, einkum vegna mikils hagvaxtar í Asíu.

Á sama tíma voru vextir á heimsmarkaði í lágmarki og fjármunir flæddu til nýmarkaðsríkja sem höfðu byggt upp stofnanaumhverfi sem verndaði fjárfesta en voru ekki svo þróuð að möguleikar til góðrar ávöxtunar væru af skornum skammti. Mörg ríki Suður-Ameríku sátu í þeim flokki, og sitja þar enn.

Hvort tveggja olli miklu hagvaxtarskeiði í heimshlutanum. Nú standa íbúar hans frammi fyrir breyttum veruleika.

Öðruvísi en fyrri kreppur

Verð á ýmsum hrávörum hefur lækkað mikið síðustu árin og hefur það grafið undan efnahagslegum stöðugleika í mörgum löndum. Þá virðist sem þolinmæði almennings gagnvart spillingu – sem lengi hefur verið landlæg í heimshlutanum – sé að minnka.

Efnahagskreppur eru ekkert nýmæli í Suður-Ameríku. Hagsveiflur þar hafa í gegnum tíðina verið bæði tíðari og stærri en í þróaðri ríkjum. Sú efnahagslægð sem nú hrjáir mörg lönd á svæðinu er hins vegar öðruvísi en fyrri kreppur fyrir margra hluta sakir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .