*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 2. ágúst 2016 09:10

Suður Kórea berst við Volkswagen

Stjórnvöld í Suður Kóreu sekta bílaframleiðandann Volkswagen, banna bíla þess og vilja ákæra stjórnendur.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Suður Kóresk stjórnvöld munu sekta Volkswagen og banna sölu bíla fyrirtækisins ásamt því að saksóknarar vilja ákæra stjórnendur fyrirtækisins.

Sektin sem hljóðar uppá 17,8 milljarða kóreskra wona, sem nemur um 16 milljónum Bandaríkjadala kemur ofan á 14 milljarða wona sekt frá síðasta ári, samkvæmt Umhverfisráðuneyti landsins.

Svindluðu á útblástursprófunum

Wolkswagen sem er stærsti bílaframleiðandi Evrópu viðurkenndi svindl á útblástursprófum á síðasta ári á bílum sínum sem keyra á díseleldsneyti.

Síðan þá hafa sölutölur fyrirtækisins og orðspor borið mikla hnekki um allan heim.

Sölubannið í Suður Kóreu hefur áhrif á 32 tegundir bíla, þar á meðal bíla undir merkjum VW, Audi og Bentley, en þó markaður fyrirtækisins í landinu sé kannski ekki stór hefur hann verið mikilvægur sérstaklega fyrir lúxusbíla undir merkjum Audi og Bentley.

Skrifstofur fyrirtækisins teknar yfir

Bannið kemur í kjölfar viðamikilla rannsókna stjórnvalda á fyrirtækinu þar sem skrifstofur fyrirtækisins voru meðal annars teknar yfir og gögn þess haldlögð.

Umhverfisráðuneytið í Suður Kóreu hefur dregið til baka heimild fyrir um 83.000 bílum seldum í landinu, svo heildarfjöldi bíla sem ekki hafa heimild frá ráðuneytinu er kominn upp í 200.000 sem er um 68% allra þeirra 300.000 bíla fyrirtækisins sem seldir hafa verið í landinu.

Bílaframleiðendur Suður Kóreu í harðri samkeppni við Volkswagen

Því hefur verið haldið fram að ástæðan fyrir hörðum aðgerðum stjórnvalda í landinu gegn bílafyrirtækinu komi til af því að Suður Kórea er eitt stærsta bílframleiðsluhagkerfið, og keppa bílar framleiddir þar við bíla Volkswagen.

Volkswagen heldur þó áfram að vera stærsti bílaframleiðandi heims, því þó salan í Bandaríkjunum hafi minnkað um 7% á fyrstu sex mánuðum ársins, hækkaði hún um sömu prósentutölu í Kína.

Stikkorð: Bandaríkin Kína Bentley Audi Suður Kórea Bandaríkin Kína bílar. VolksWagen