Suður Súdan sækist nú eftir 1,9 milljarða dala láni frá Kína, til þess að byggja vegi og setja upp olíubora. Þetta kemur fram á vef Bloomberg fréttaveitunnar. Suður Súdan er eitt fátækasta land afrísku heimsálfunnar. Landið hefur veri hrjáð af stríðum og mikilli verðbólgu. Verðbólga var til að mynda 660 prósent í júlí 2016.

Miklar auðlindir er að finna í landinu. Af öllum þjóðum sunnan við Sahara eyðimörkina, eru olíulindir Suður Súdan taldar vera með þeim stærstu. Framleiðsla hefur þó verið lítil, einungis um 120.000 tunnur á dag. Árið 2013 braust út borgarastríð sem hefur tekið sinn toll. Stríðið hefur bæði verið mannskætt og valdið talsverðum skaða á viðkvæmum innviðum landsins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði því í fyrra að hagkerfi Suður Súdan myndi dragast saman um 5,3%.