Hagnaður Kjúklingastaðarins í Suðurveri á síðasta ári var rétt undir 30% af því sem hann var árið 2017, eða 3,2 milljónir í stað 11,1 milljónar króna.

Nemur samdrátturinn því 71% milli ára, á sama tíma og tekjurnar minnkuðu um 3,8%, úr 135,2 milljónum í 130 milljónir króna. Inn í það kemur um 2,1 milljónar króna söluhagnaður árið 2017.

Rekstrargjöld félagsins stóðu hins vegar nærri því í stað á milli ára, fóru úr 123,4 milljónum króna í 123,9 milljónir króna. Skuldir félagsins lækkuðu milli ára úr 34,6 milljónum í 28,8 milljónir króna.

Árið 2017 voru 8 milljónir króna greiddar út sem arður, en árið 2018 nam arðgreiðslan til eigendanna 10,5 milljónum. Félagið er til helminga í eigu hjónanna Jóns Eyjólfssonar framkvæmdastjóra og Guðrúnar Hermannsdóttur.