Sælkeraverslunin Vínberið hefur verið starfrækt á Laugavegi 43 allt frá árinu 1976. Í upphafi var verslunin matvöruverslun en frá árinu 1995 hefur hún verið sælkeraverslun sem sérhæfir sig í súkkulaði. Frá stofnun hefur verslunin verið í eigu sömu fjölskyldu en kaupmaðurinn Logi Helgason stofnaði verslunina. Logi rak búðina í fjörutíu ár en á fjörutíu ára afmæli verslunarinnar í apríl árið 2016, áttu sér stað kynslóðaskipti í rekstrinum þegar sonur Loga, Helgi Þór Logason, og eiginkona hans, Guðrún Vala Davíðsdóttir, tóku við rekstrinum.

„Reksturinn gengur vel og við höfum ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Guðrún Vala. „Miðbærinn iðar af lífi og við höfum líkt og aðrir verslunareigendur notið góðs af stórauknum fjölda ferðamanna hér á landi síðastliðin ár. Við búum einnig svo vel að eiga nokkuð stóran hóp af fastakúnnum. Okkur þætti þó auðvitað skemmtilegt að sjá aðeins fleiri Íslendinga í miðbænum. Það eru þó alls ekki færri Íslendingar sem versla við okkur heldur en ferðamenn, það er svolítið árstíðabundið. Á sumrin koma margir ferðamenn í verslunina okkar og svo núna á þessum tíma í kringum jólin þá er meirihluti viðskiptavina okkar Íslendingar.“

Annríkt í kringum jólin

Nú fer senn að líða að jólum og er það sá tími árs sem er hvað mest annasamur hjá verslunum. Að sögn Guðrúnar Völu er einmitt sjaldan meira að gera hjá Vínberinu en á þessum tíma árs.

„Þetta jólatímabil er mjög stórt hjá okkur. Við erum með mjög breytt úrval af súkkulaði og mjög margar tegundir í boði. Það má segja að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hjá okkur, hvort sem fólk er nýliðar í að borða súkkulaði eða lengra komið. Í kringum jólin tökum við inn mikið af skemmtilegum minni súkkulaðivörumerkjum ásamt því að vera með þessi stærstu í boði. Úrvalið er einnig nokkuð frábrugðið því sem það er vanalega þar sem konfektkassar eru meira áberandi en á öðrum tímum ársins. Það ríkir mikil hefð í kringum konfektkassa um jólin og það er algengt að fólk gefi þá sem jólagjöf eða sé með þá á boðstólum í matarboðum.“

Konfektborðið vinsælt

Þegar Guðrún Vala er spurð um hvað sé vinsælasta varan í versluninni, á hún mjög erfitt með að svara spurningunni.

„Það er mjög erfitt að benda á eitthvað eitt. Við erum með yfir 120 tegundir af súkkulaðiplötum í boði og þar getur fólk valið sér 100% súkkulaði, mjólkursúkkulaði og allt þar á milli. En það er þó hægt að nefna konfektborðið okkar, en í því getur fólk valið sér staka mola eftir eigin smekk og ráðið fjölda þeirra sjálft. Það er mjög vinsælt hjá okkur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðu WOW air og Icelandair.
  • Fjallað um nýlegan héraðsdóm sem kann að hafa viðtæk áhrif.
  • Úttekt á netverslun.
  • Viðtal við Finn Oddsson, forstjóra Origo.
  • Umfjöllun um verðfall Bitcoin.
  • Óðinn skrifar um viðskiptastríð.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um Má Guðmundsson.