Á síðasta föstudag voru frumsýndir ferðaþættirnir Down to Earth með Zac Efron á Netflix. Í fyrsta þættinum er sýnt frá ferðalagi Efron um Ísland en hann kíkti meðal annars við í verksmiðju súkkulaðiframleiðandans Omnom úti á Granda.

„Þeir komu hingað árið 2018 og tóku upp þetta innlegg. Við vorum eiginlega búnir að afskrifa að þetta yrði nokkurn tímann sýnt,“ segir Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri Omnom. „Svo fengum við tölvupóst fyrir tveimur vikum um að þættirnir væru að fara í loftið og að innleggið okkar yrði heilar fjórar mínútur.“

Óskar segir að allar birgðir af Omnom súkkulaðinu hjá dreifingaraðilum í Bandaríkjunum hafi selst upp eftir að þátturinn var frumsýndur. Á sunnudaginn hafði fyrirtækinu borist 900 pantanir í gegnum netverslun sem jafngildir um 55 þúsund dollurum eða 7,7 milljónum króna.

Sjá einnig: Omnom í verslanir Whole Foods

„Þá var búið að tæma lagerinn okkar í Portland, í Maine fylki, sem íslenska félagið Ísafold Distribution Center sér um. Á mánudaginn heyrðum við svo í öðrum dreifingaraðila, sem sér t.d. um að dreifa í Whole Foods verslanir, sem er einnig orðinn tómur. Hann segist vera að fá fyrirspurnir frá mörgum nýjum búðum sem hafa áhuga en hann nær ekki að afgreiða pantanir.“

„Við ákváðum því að senda 30 þúsund súkkulaðiplötur með flugi til að halda þessu gangandi og missa ekki viðskiptavini,“ segir Óskar sem býst við mikilli eftirspurn um komandi helgi. Hann segir um 57 þúsund leitir hafa verið með Omnom á Google síðastliðinn laugardag. „Maður trúir ekki viðbrögðunum.“

Uppfært: Óskar segir að dreifingaraðilum fyrirtækisins hafi borist pantanir fyrir aðrar 30 þúsund súkkulaðiplötur.