Fyrir aðeins einu ári virtist ekkert geta farið úrskeiðis á Wall Street: Fréttir af stjarnfræðilegum hagnaði fjármálafyrirtækja, metviðskiptum og ofurlaunum æðstu stjórnenda voru nánast daglegt brauð. En allt hefur þetta breyst, segir í fréttaskýringu International Herald Tribune (IHT).

Aðeins tólf mánuðum síðar hefur næstum helmingur af hagnaði bankanna á þessu gullaldartímabili – frá ársbyrjun 2004 til júlí árið 2007 – gufað upp. Og upphæðirnar eru stjarnfræðilegar: Sjö stærstu fjármálafyrirtækin á Wall Street högnuðust um samtals 254 milljarða Bandaríkjadala á þessu tímabili.

En frá því í júlímánuði á liðnu ári hafa þessir sömu bankar – Bank of America, Citigroup, JPMorgan Chase, Lehman Brothers, Merrill Lynch, Goldman Sachs og Morgan Stanley – afskrifað eignir í bókum sínum að andvirði ríflega 107 milljarðar dala. Í kjölfarið hefur hagnaður bankanna dregist mikið saman og hlutabréf félaganna hríðfallið í verði.

Samkvæmt nýlegri könnun Bloomberg-fréttaveitunnar hafa stærstu fjármálafyrirtæki heims tapað 386 milljörðum Bandaríkjadala frá því að lánsfjárkreppan skall á. Afskriftirnar má ekki síst rekja til hrunsins með fjármálagjörninga á bandarískum undirmálslánamarkaði. Sérfræðingar gera ráð fyrir fleiri slæmum fréttum í þessari viku þegar nokkrir stórir bankar munu kynna afkomu sína á öðrum ársfjórðungi. Samfara því að tap bankanna heldur áfram að aukast spyrja margir bankastjórnendur sig – og ekki síður hluthafarnir – sömu spurningar: Hvenær mun vandræðunum á fjármálamörkuðum linna?

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .