Fyrir helgina lauk viðgerð á öðrum spenni Sultartangastöðvar, en eins og fram kom í fjölmiðlum á sínum tíma biluðu báðir vélaspennar stöðvarinnar með skömmu millibili í lok síðasta árs.

Verkið gekk vel í alla staði og er Sultartangastöð farin að framleiða rafmagn á ný en með hálfum afköstum eftir að hafa verið stopp síðan á aðfangadag.  Þrátt fyrir þessa miklu bilun var nánast full afhending á ótryggðu rafmagni og afgangsorku til viðskiptavina Landsvirkjunar meðan á viðgerð stóð.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Vegna langs afhendingartíma á varahlutum í spennanna var gripið til þess ráðs að flytja varahluti frá spenninum sem bilaði á aðfangadag yfir í spenninn sem bilaði 1. nóvember.  Viðgerð þessi fór fram á staðnum og önnuðust starfsmenn Landsvirkjunar og Landsnets verkið undir leiðsögn sérfræðinga hins franska framleiðanda spennanna.  Áætlað er að viðgerð á seinni spenninum ljúki í lok apríl en bíða þarf eftir nýjum varahlutum frá framleiðandanum í hann.

Bilun varð í einangrun spennanna sem líklega má rekja til eldinga.