Stjórnarformaður Salt Pay, Ali Mazanderani, segir að markmið félagsins sé fyrst og fremst að styðja við litla og meðalstóra söluaðila með því að standa ekki aðeins í færsluhirðingu og greiðslumiðlun. Til þess þurfi að útbúa hugbúnað og safna upplýsingum um hegðun viðskiptavinarins.

„Eitt helsta vandamál rekstraraðila getur verið hve lítið þeir vita um viðskiptavini sína og hve dýrt það getur verið að safna slíkum upplýsingum. Við viljum aðstoða söluaðila við að tengjast kúnnanum og hjálpa þeim að vaxa og dafna meðal annars með CRMþjónustu (e. customer relationship management) og vildarkerfum,“ segir Mazanderani.

Hann bendir á að þessu megi að hluta líkja við íslensku fiskvinnsluna. Á árum áður hafi allt verið handvirkt en með tilkomu félaga á borð við Marel hafi vélar og tækni tekið yfir störf. Þá hafi fiskvinnslur staðið frammi fyrir því vali að tileinka sér tæknina eða halda áfram að gera hlutina á gamla mátann. Flestir velji fyrri kostinn enda sá síðari til þess fallinn að skaða samkeppnishæfni. Starfsfólk hafi þá haft val um að aðlagast nýjum veruleika, tileinka sér tæknina, taka að sér önnur störf í framleiðslukeðjunni eða þá að hverfa á braut. Um sextíu nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til félagsins frá því í sumar en einnig hefur verið nokkuð um uppsagnir. Til að mynda var á þriðja tug sagt upp störfum hjá félaginu síðustu mánaðamót.

Fjárfesta í tækni og starfsfólkinu

„Hugsjónin okkar þýddi að það þurfti að breyta miklu innanhúss en margt sem var gert áður samrýmist einfaldlega ekki þeirri stefnu sem við viljum taka. Fyrir suma er auðvelt að aðlagast nýjum áherslum, aðra ekki og enn aðrir litu á þessi tímamót sem tækifæri til að leita á önnur mið,“ segir Mazanderani.

Að undanförnu hefur afkoman af rekstri Borgunar ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir og til að byrja með eiga hinir nýju eigendur ekkert endilega von á því að tölurnar færist úr rauðu yfir í svart. „Við verðum að passa okkur á því að verða aldrei sátt eða södd því það leiðir af sér andvaraleysi. Það er mat okkar að við verðum ávallt að hafa tvennt í forgrunni. Annars vegar viðskiptavininn og að við séum að bjóða þeim bestu mögulegu þjónustu. Hins vegar þurfum við að fjárfesta í fólkinu okkar og sjá til þess að það blómstri. Við viljum ráða ungt fólk til okkar, næstu kynslóð leiðtoga, leyfa því að taka ákvarðanir, án þess að vera heft af arfleifð fyrirtækisins og því að hlutirnir hafi alltaf verið svona, og hafa áhrif á hvaða stefnu skal taka. Við erum til í að fjárfesta í hvoru tveggja, viðskiptavinunum og fólkinu. Ef reksturinn er að tapa peningum en við erum að vaxa á fyrrnefndum sviðum þá munum við ná árangri á endanum,“ segir Mazanderani.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .