Nýmarkaðslönd hafa vaxið hraðar en önnur markaðssvæði á fyrri hluta ársins, og hækkuðu hlutabréfavísitölur í Perú, Argentínu, Rússlandi, Brasilíu og Pakistan mest. Einnig var vöxtur í Kanada, Bretlandi, Indlandi og Bandaríkjunum.

Mesta lækkunin var á Ítalíu, en einnig lækkuðu hlutabréfavísitölur Japans, Kína, Spánar, Þýskaland, Frakklands og víðar.

Perú hækkaði mest ásamt Argentínu

Hækkaði hlutabréfavísitalan í Perú um 40% meðan sú argentíska hækkaði um 25,77%.

Mervel vísitalan Argentíska var endurvakin eftir valdatöku Mauricio Macri í forsetastólinn í desember, en alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir samdrætti í landinu um 1% í ár áður en hann yxi á ný um 2,8% árið 2017.

Hefur forsetinn fellt úr gildi flest öll fjármagnshöft og reynt að ná samkomulagi við kröfuhafa landsins, til að létta á deilum sem hafa verið í gangi síðan árið 2001.

Mesta lækkunin á Ítalíu

FTSE 100 vísitalan lækkaði eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, en samt sem áður nam hækkun hennar á árinu 4,2%.

Ítalska FTSE MIB vísitalan lækkaði á sama tíma um meira en 24%, en þar í landi hafa verið miklar áhyggjur af bankakerfi landsins.

Sterkara yen hefur haft slæm áhrif á nikkei 225 vísitöluna þar í landi sem hefur lækað um 18% fyrstu sex mánuði ársins meðan gjaldmiðillinn hefur hækkað um 17% miðað við gengi Bandaríkjadals á sama tíma.