Stærsta sumarbústaðabyggð landsins er á Suðurlandi og í samanburði við aðra landshluta er meðalverðið hæst þar. Frá árinu 2015 hefur meðalfermetraverð á sumarbústöðum á Suðurlandi hækkað um tæp 29%.

Viðskiptablaðið skoðaði meðalverð á sumarbústöðum á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi. Tölurnar byggja á upplýsingum úr verðsjá Þjóðskrár Íslands, en þær upplýsingar byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna. Ástæðan fyrir því að ekki eru fleiri landshlutar með í þessari umfjöllun, er sú að Þjóðskrá birtir einungis upplýsingar um verð ef þremur eða fleiri samningum hefur verið þinglýst á því tímabili sem skoðað er og almennt er ekki mikil viðskipti með sumarbústaði í þeim landshlutum sem ekki eru með í þessari umfjöllun.

Svæðið við Þingvallavatn dýrast

Á Suðurlandi er hæsta fermetraverðið við Þingvallavatn en á síðustu tólf mánuðum hefur meðalfermetraverðið þar verið tæplega 479 þúsund krónur. Það verð byggir á fimm þinglýstum kaupsamningum. Næsthæsta fermetraverðið á Suðurlandi er á svæði sem heitir Brekkur og er við Úlfljótsvatn. Á síðustu tólf mánuðum hefur þremur kaupsamningum verið þinglýst vegna sumarbústaða þar og er meðalfermetraverðið rúmlega 328 þúsund krónur.

Ódýrustu bústaðirnir fást við Hraunborgir í Grímsnesi. Á síðasta ári hefur meðalfermetraverðið þar numið tæplega 282 þúsund krónum og byggja þær upplýsingar á átta kaupsamningum.

Vesturland

Sumarbústaðir á Vesturlandi eru í dag um 16% ódýrari en bústaðir á Suðurlandi. Frá árinu 2015 hefur meðalfermetraverðið á Vesturlandi hækkað um tæp 25%. Milli áranna 2016 og 2017 hækkaði verðið aðeins um 1%, eftir að hafa hækkað um rúmlega 17% milli 2015 og 2016. Loks hækkaði verðið um 6,2% milli áranna 2017 og 2018.

Á Vesturlandi eru dýrustu bústaðirnir í sumarbústaðabyggðinni í Skorradal. Á síðustu tólf mánuðum hefur fermetraverðið þar verið rúmlega 409 þúsund krónur að meðaltali og liggja fimm þinglýstir samningar til grundvallar. Ódýrustu bústaðirnir eru á Snæfellsnesi en á síðustu tólf mánuðum hefur fjórum kaupsamningum verið þinglýst þar og er meðalfermetraverð rúmlega 234 þúsund krónur.

Norðurland

Frá árinu 2015 og til dagsins í dag hefur meðalverð á fermetra hækkað um tæplega 39% á Norðurlandi. Meðalfermetraverð milli áranna 2015 og 2016 lækkaði um tæp 12%. Hins vegar hækkaði verðið um ríflega 39% milli áranna 2016 og 2017. Loks hækkaði verðið um 12% milli áranna 2017 og 2018.

Á Norðurlandi er er hæsta fermetraverðið í Eyjafirði við Akureyri. Á einu ári hefur þremur samningum verið þinglýst þar og meðalfermetraverðið er rétt rúmar 394 þúsund krónur. Í Hálöndum, sem er sumarhúsabyggð við Hlíðarfjall, er meðalfermetraverðið tæpar 360 þúsund krónur og þrír þinglýstir samningar liggja þar til grundvallar. Á síðustu tólf mánuðum hefur svo sjö samningum verið þinglýst á Norðurlandi og er meðalfermetraverðið þar tæpar 325 þúsund krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .