Eigendur sumarbústaðar í Grímsnes- og Grafningshreppi voru í Landsrétti í dag sýknaðir af kröfu sveitarfélagsins um að bústaðurinn, sem nýttur var til útleigu heimagistinga, yrði skattlagður sem atvinnuhúsnæði. Með því staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms sem og úrskurð yfirfasteignamatsnefndar.

Málið tekur til álagningar fasteignagjalda ársins 2017. Taldi sveitarfélagið að þar sem bústaðurinn hefði verið nýttur í heimagistingu bæri að greiða 1,65% fasteignaskatt af eigninni. Þessu mótmæltu eigendurnir og töldu að eignin ætti að bera 0,475% fasteignaskatt.

Í dómi Landsréttar var vísað til lagabreytinga sem gerðar voru árið 2016 og fólust í sér að rammi var settur utan um starfsemi heimagistingar, Airbnb-lögin svokölluðu. Þar kemur meðal annars fram að heimagisting, sem uppfylli skilyrði laganna, teljist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Landsréttur tók einnig fram að samkvæmt stjórnarskránni þyrfti skýra lagaheimild til álagningar skatta. Ekki var fallist á að framkvæmd sveitarfélagsins uppfyllti það skilyrði og sumarbústaðareigendurnir því sýknaðir af kröfu þess. Málskostnaður, samtals 2,5 milljónir í héraði og Landsrétti, var einnig felldur á hreppinn.