Greiningardeild Arion Banka segir að tónn peningastefnunefndar Seðlabankans hafi mýkst til muna á síðustu mánuðum. Segir greiningardeildin að gengi krónunnar hafi fengið minna vægi í ákvörðun nefndarinnar en oft áður á meðan raunvextir fengu veigameira hlutverk. Þetta kemur fram í markaðspunktum deildarinnar.

Máli sínu til stuðnings bendir deildin á það að tvær af þrettán setningum yfirlýsingar peningastefnunefndar hafi fjallað um hækkun raunvaxta Seðlabankans á milli funda. Það var þó sér staklega ein setning sem þótti vekja athygli:

„Hækkun raunvaxta bankans frá síðasta fundi peningastefnunefndar felur hins vegar í sér nokkru meira aðhald en nefndin hafði stefnt að og telur nægilegt til þess að stuðla að verðstöðugleika.“

Er þetta talin nokkuð umbúðarlausri framsetning en nefndin hefur birt að undanförnu og gefi vísbendingu um það raunvaxtastig sem horft er til við vaxtaákvarðanir.

Bendir deildin á það að þetta sé þriðja yfirlýsingin í röð þar sem ekki er minnst á spennu í hagkerfinu, eftirspurnarvöxt eða að aðstæður á vinnumarkaði kalli á varkárni við ákvörðun vaxta heldur aðeins að: „Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn".

Segir greiningardeildin að svo virðist sem að minnsta kosti hluti peningastefnunefndar sé kominn í vaxtalækkunarbuxurnar og á þeirri skoðun að lækka megi vexti nokkuð meira án þess að það ógni stöðugleika. „Þá hefur seðlabankastjóri oftar en einu sinni talað um að raunvaxtastig hafi líklega lækkað á Íslandi og að nefndin sé að stefna að mjúkri lendingu að nýju jafnvægi. Þetta kemur heim og saman við ákvörðun nefndarinnar um að lækka vexti að þessu sinni. Ef krónan gefur ekki eftir í sumar eða heldur áfram að styrkjast má gera ráð fyrir, að öðru óbreyttu, að verðbólgu verði minni en spá Seðlabankans gerir ráð fyrir. Þá hafa nýjustu verðbólgutölur enn fremur sýnt að undirliggjandi verðbólga er lítil og aðeins húsnæðisliðurinn sem er verðbólguhvetjandi að einhverju ráði. Teikn eru þó á lofti að húsnæðisverðhækkanir gætu temprast á næstu mánuðum og misserum. Af þeim sökum er ekki loku fyrir skotið að nefndin lækki vexti aftur í ágúst." segir að lokum í markaðspunktum deildarinnar.