„Ég hlakka til að vinna með starfsfólki Meniga en hlutverk mitt er að hjálpa til við að tryggja að skilaboðin út á við séu skýr. Bæði til Íslendinga um að nota appið en ekki síst snýst þetta um að starfa með mörgum stærstu bönkum heims og kynna lausnina til fleiri," segir Alicja Lei, sem ráðin hefur verið frá Travelade í markaðsdeild fjártæknifélagsins Meniga.

„Áður en ég hóf störf hjá Meniga, var ég búin að hala niður Meniga-appinu, en ég verð að játa að ég hef ekki verið mjög meðvituð um fjármál mín eða eyðslu svo það er afar hjálplegt fyrir manneskju eins og mig að fá mánaðaryfirlit yfir hvað ég eyði miklu í mismunandi hluti.

Mér finnst svolítið leiðinlegt að missa af því að kynnast samstarfsfélögunum hérna á skrifstofunni því að skömmu eftir að ég byrjaði voru allir sendir heim til að vinna. Hins vegar fæ ég í staðinn tækifæri til að kynnast þeim á annan og kannski persónulegri hátt því fólk er minna formlegt heima í stofunni í myndaspjalli, kannski bara í hettupeysum og börnin hlaupandi um á bakvið."

Alicja er fædd og uppalin í Kanada en flutti til Íslands fyrir hartnær fjórum árum. „Ég fór til London í meistaranám í alþjóðasamskiptum og vann þar með skóla í tískugeiranum, en svo þegar ég útskrifaðist árið 2008 var enginn að ráða í samskiptastöður, og hélt ég því áfram þar. Þegar ég flutti svo heim fékk ég tækifæri til að komast í markaðsmálin hjá Helly Hansen sem Íslendingar þekkja kannski helst af sjóklæða- og vinnufatnaði, sem og skíðum, en þeir eru stórir í öllu sem er vatnshelt," segir Alicja.

„Ég kynnist síðan manninum mínum, Arnþóri Heimissyni fjármálastjóra Rafna, óvænt á veitingastað í Vancouver, en þá hafði hann verið í fjallaskíðaferð um óbyggðir Bresku Kólumbíu og við stundum það svolítið saman. Það sem mér finnst frábært við Ísland er hve samfélagið er samheldið, og sama á við um fjölskyldu hans Arnþórs og 16 ára dóttur hans, svo ég hef verið vel tengd inn í það frá fyrsta degi.

Faðir minn starfar sem verkfræðingur hjá Boeing í Seattle en þegar ég var yngri áttu foreldrar mínir keðju af veitingastöðum í Utah og ég ólst upp við eldamennsku og nýt þess að elda. Bestu stundir fjölskyldunnar eru einmitt þegar allir hjálpast að við að búa til kínversk smáhorn. Síðan á fjölskyldan afdrep í Flatey á Breiðafirði en ég skildi ekki fyrst alveg aðdráttaraflið við að fara í sumarbústað án þess að hafa sól og strönd. Í dag finnst mér það hins vegar alveg frábært að komast úr borginni, þótt hún sé sjálf mjög róleg."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .