Haukur Guðjónsson er einn nokkurra háskólanema sem hefur í 10 vikur í sumar staðið fyrir jafningakennslu í Hugmyndahúsi Háskólanna undir nafninu „Frítt sumarnámskeið í stofnun fyrirtækja". Þetta verkefni sem unnið var í sjálfboðavinnu hefur nú skilað 35 nemendum sem voru útskrifaðir í dag með „Diploma" upp á vasann. Halda þeir nú út í samfélagið með áform um stofnun á að minnsta kosti 20 fyrirtækjum sem sum hver eru þegar komin í skráningu.

„Við sáum bara að það þurfti að gera eitthvað jákvætt fyrir samfélagið. Það var mikil neikvæðni í gangi, fólk að missa vinnu og námsmenn í vandræðum hvað ætti að gera við sumartímann. Í stað þess að kvarta ákváðum við að nýta tíma okkar til að gera eitthvað uppbyggileg. Það virðist hafa heppnast mjög vel," segir Haukur Guðjónsson.

Hann segir að þau hafi rennt alveg blint í sjóinn með aðsókn að námskeiðinu. „Þegar aðsóknin var farin að nálgast þrjú hundruð urðum við svolítið skelkuð. Við áttum alls ekki von á þessu, en vorum eigi að síður mjög sátt með þetta. Nú er komið í ljós að það verða yfir 20 fyrirtæki stofnuð út frá þessu námskeiði og við erum himinlifandi yfir þeim árangri.”

Voru þá engir styrktaraðilar til að fjármagna þetta námskeiðahald?

„Nei, það fór aldrei neinir peningar í gegnum námskeiðið og við pössuðum vel upp á það. Allt var þetta unnið í sjálfboðavinnu og allt sem við fengum til námskeiðahaldsins var gefið. Þá höfum við líka nýtt þá sem voru á námskeiðunum, m.a. Helenu sem nú er að stofna kaffihús, hún sér um veitingarnar við útskriftina. Þannig höfum við reynt að láta alla í hópnum styðja hverja aðra.

Verður framhald á svona námskeiðahaldi?

„Það er góð spurning. Þetta er búið að vera ótrúlega mikil vinna, en okkur langar mjög mikið til þess að halda áfram. Það er mikill áhugi, en nú þurfum við aðeins að jafna okkur eftir þessa törn og sjá hvort við getum hlaðið batteríin til að fara í nýtt svona verkefni."

Er árangurinn ásættanlegur?

„Já, þá er þegar búið að stofna nokkur fyrirtæki og verið að stofna fleiri á næstu dögum. Við ætlum að reyna að fylgjast vel með hópnum og hittast reglulega til að styðja við bakið á honum."

Þau fyrirtæki sem spretta upp úr þessu eru þá svolítið ykkur að kenna?

„Já, þetta er okkur að kenna ," segir Haukur og hlær.

Gunnar Níelsson hjá Hugmyndahúsi Háskólanna sagði við þetta tækifæri að þau sem þar starfa séu afar stolt af þessum árangri. Veitti Hugmyndahúsið þeim námskeiðsþátttakendum sem þóttu skara fram úr verðlaun við útskráninguna. Þar hlaut Bjarki Gunnarsson fyrstu verðlaun, en hann er nýútskrifaður rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann kynnti við þetta tækifæri nýtt fyrirtæki sem heitir Menntamenn og er ætlað að koma á fót stoðkennslu í menntaskólum og háskólum.