Yfir sumartímann senda margir foreldrar börn sín á námskeið. Námskeiðin eru af ýmsum toga og allur gangur er á verði námskeiðanna, en samkvæmt samantekt Verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands (ASÍ) liggur verðið á sumarnámskeiðum fyrir börn og unglinga á bilinu 4.450 til 84.000 krónur.

Ódýrasta námskeiðið er á íþrótta- og leikjanámskeið hjá Íþrótta-og tómstundaráði Hafnarfjarðar en dýrasta námskeiðið, af þeim sem skoðuð voru, er hjá Dale Carnegie.

Mörg námskeiðin eru á sama verði og í fyrra, en þó má greina hækkanir í verði á námskeiðum. Algeng hækkun er 5-20% en mesta hækkun í samantekt ASÍ reyndist 67% í Sumarnámskeiði í náttúrufræðum hjá Náttúrufræðistofu. Eitt námskeið lækkaði í verði af þeirri ástæðu að ekki verður boðið uppá hádegismat líkt og fyrri ár.

ASÍ tekur tvö dæmi um kostnað við að senda börn sín á sumarnámskeið. Í öðru þeirra fer átta ára gamalt barn á eitt fimm daga námskeið allan daginn, annað heilsdagsnámskeið sem endar með útilegu og í tvær vikur hálfan daginn. Heildarkostnaður námskeiðsins er 66.600 krónur, fyrir utan greiðslu fyrir gæslu, hressingu og hádegismat.