Þrátt fyrir að sumarið sé nánast komið, á höfuðborgarsvæðinu að minnsta kosti, þurfa unnendur hvítbjórs þó að bíða í nokkrar vikur enn eftir því að Sumaröl Víkings komi aftur á markað. Bjórinn kemur í verslanir ÁTVR og á veitingahús þann 1. maí næstkomandi eða jafnvel fyrr, að sögn Hreiðars Þórs Jónssonar, markaðsstjóra áfengra og heitra drykkja hjá Vífilfelli.

„Við gerum ráð fyrir því að hefja átöppun í síðustu vikunni í apríl og því ætti bjórinn að vera kominn til neytenda þann fyrsta maí, en við vonumst til að það gerist þó aðeins fyrr.“

Hreiðar segir að á þeim stutta tíma sem liðinn er hafi Sumarölið náð töluverðum vinsældum meðal íslenskra bjórunnenda. „Við settum hann á markað fyrir tveimur árum og kynntum hann í samstarfi við veitingahús. Hann varð strax mjög vinsæll og þetta fyrsta sumar seldum við um 7.000 lítra. Í kjölfarið ákváðum við að næst myndum við setja hann líka í sölu í verslunum ÁTVR og í fyrra jókst salan alveg gríðarlega. Þá seldum við 43.000 lítra og þótt dósasalan hafi verið stærsti hlutinn af sölunni tvöfaldaðist þó sala á bjórnum á veitingastöðum.“

Hreiðar segir að Vífilfell sé að vinna að nýjum bjór, en segir þó að ekki sé tímabært að greina nánar frá honum að svo stöddu.