Um 40 nemendur og kennarar frá 16 löndum taka þátt í smáríkjaskóla Rannsóknarseturs um smáríki við Háskóla Íslands (HÍ). Skólinn er starfræktur frá 23. júní til 5. júlí og er haldinn í samstarfi við 11 erlenda háskóla.

Skólinn er opinn fyrir bæði íslenska og erlenda nemendur á BA og MA stigi í námi.

Smáríkjasetrið hlaut styrk Evrópusambandsins til reksturs sumarskóla um smáríki og Evrópusamrunann í annað sinn nú.

„Þetta er þriðja og síðasta árið sem styrkur ESB til reksturs sumarskólans gildir fyrir. Setrið hefur þegar skapað sér sess sem ein aðalmiðstöð smáríkjarannsókna í heiminum í dag og hefur hlotið fjölda styrkja frá innlendum og erlendum rannsóknasjóðum. Kennsla og rannsóknir í smáríkjafræðum hafa í kjölfarið aukist gríðarlega en til marks um það eru nú að jafnaði kennd fjögur námskeið í smáríkjafræðum á B.A. og M.A. stigi í stjórnmálafræði við HÍ á hverjum vetri,“ segir í fréttatilkynningu frá HÍ.

„Sumarskólinn er þegar orðinn vel þekktur meðal háskólasamfélagsins í Evrópu sem marka má af því að á hverju ári sækja mun fleiri um inngöngu en pláss er fyrir, bæði kennarar og nemendur. Auk þess að sitja fyrirlestra sækja nemendur ýmis embætti, samtök og stofnanir heim, m.a. forseta Íslands, utanríkisráðuneytið, Alþingi og Samtök iðnaðarins. Allir fyrirlestrar á sumarskólanum eru teknir upp, unnir sérstaklega og birtir á netinu. Þannig hafa samstarfsskólar Smáríkjasetursins getað nýtt sér þessa fyrirlestra bæði til að bjóða nemendum sínum upp á námskeið sumarskólans í heild sinni eða notað einn og einn fyrirlestur inn í námskrá sína. Þessir rafrænu fyrirlestrar hafa þegar verið notaðir með góðum árangri í kennslu í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands,“ segir jafnframt í fréttatilkynningunni.