Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hefur birt nýjar reglur um vinnutíma sumarstarfsmanna og mega þeir ekki lengur verja nóttinni á skrifstofunni.

Til að bæta vinnuskilyrði í bankanum og draga úr streitu vegna of mikils vinnuálags hefur Goldman sagt nýjasta árgangi sumarstarfsmanna sinna að þeir megi ekki lengur vinna lengur en sautján tíma á dag. Þeir megi hins vegar vinna frá sjö um morguninn og fram til miðnættis.

Goldman hefur einnig hvatt almenna starfsmenn, sem eru neðarlega í metorðastiganum, til að vinna ekki á laugardögum og Bank of America hefur sagt yngri starfsmönnum að taka sér frí að minnsta kosti á fjórum helgardögum í mánuði. Þetta breytir því hins vegar ekki að hundrað klukkutíma vinnuvikur eru fremur reglan en undantekningin í stórum bandarískum fjármálafyrirtækjum.