Það er misjafnt hversu mikið stjórnmálamenn einangra sig eftir að þeir verða ráðherrar. Óumdeilt er að þeir þurfa að fara varlega þegar kemur að skemmtanalífi því eftir þeim er tekið og nú eru allir með myndavélina á sér alltaf og þræðir internetsins dreifa upplýsingum hraðar og víðar en áður þekktist. En sem betur fer hættir fólk ekki að skemmta sér.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur til dæmis kíkt á Ölstofuna til að skrafa við aðra gesti yfir bjórkollu. Það gerði Steingrímur J. Sigfússon líka þar sem hann ræddi meðal annars við Vilhjálm Egilsson og Einar Karl Haraldsson.

Davíð Oddsson upplýsti í lok þingferils síns að hann hefði aldrei komið inn á íslenska krá eftir að bjórinn var leyfður 1989. Annað var einnig ólíkt með þeim Davíð og Steingrími: Davíð studdi að leyfa bjór á meðan Steingrímur varaði við því. „Ég óttast að áfengt öl, sérstaklega léttara ölið, geti orðið fyrsta sporið inn á braut vímuefnanna,“ sagði Steingrímur 1988.